Fara á efnissvæði

Um sjóðinn

Sjóðurinn er stofnaður á grundvelli kjarasamnings á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) hins vegar dags. 14. maí 2000.

Sjóðurinn er hýstur hjá VR og sér VR um að tryggja rekstur sjóðsins og afgreiðslu styrkja.

Hlutverk

Hlutverk Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks samanstendur af fimm atriðum, en þau eru:

  1. Að auka starfshæfni og menntunarstig félagsfólks sjóðsins sem leitt getur til virðisauka fyrir starfsfólkið og fyrirtækin.
  2. Að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja sem greiða í sjóðinn með aukinni menntun og hæfni starfsfólks.
  3. Að stuðla að aukinni virðingu fyrir störfum í verslunar-, þjónustu- og skrifstofugreinum með því m.a. að styðja við áframhaldandi þróun náms og hæfniaukningar tengt greinunum.
  4. Að hvetja félagsfólk til náms og/eða frekari hæfniaukningar.
  5. Að hvetja fyrirtæki til að hækka menntunarstig í fyrirtækjum og stuðla að aukinni hæfni starfsfólks innan fyrirtækja.

Framtíðarsýn

Í framtíðarsýn sjóðsins birtist yfirlýsing um það hvernig stjórn sjóðsins sér starfsemi sjóðsins í framtíðinni. Sett hafa verið markmið um þann árangur sem sjóðurinn á að ná og fyrir hvað hann á að standa. Helstu atriði í framtíðasýninni eru:

  • Hlutfall styrkja af greiddum iðgjöldum vex samhliða aukinni kynningu á sjóðnum.
  • Áhersla er á að styrkt nám sé vottað eða viðurkennt. Nám sem sjóðurinn styrkir eykur starfshæfni starfsfólks og stuðlar að aukinni samkeppnishæfni fyrirtækja.
  • Aðhalds er gætt í rekstrarkostnaði og ekkert tap er af rekstri sjóðsins.
  • Sjóðurinn beitir sér fyrir þróun náms sem nýtist sjóðsfélögum og fyrirtækjum. Sú þróun er kostuð með fjárfestingatekjum sjóðsins.
  • Gagnsemi styrktra verkefna er mæld og markvissar aðgerðir framkvæmdar til þess að auka ásókn í styrki og hækka menntunarstig sjóðsfélaga.
  • SVS beitir sér fyrir því að auka virðingu fyrir störfum sjóðsfélaga og aukinni fagmennsku í þeim greinum sem þeir starfa við.
  • Rík áhersla er lögð á skýrar úthlutunarreglur, gagnsæi í starfsemi sjóðsins og góða stjórnunarhætti.
  • Starfsfólk sjóðsins veitir sjóðsfélögum og fyrirtækjum fyrirmyndarþjónustu og hefur frumkvæði að þróun náms í samráði við hagsmunaaðila.